Doula segiru já

Mér finnst ég loksins vera að öðlast góða reynslu af því að vera doula, komin með kjöt á beinin einhvern veginn. Margt í leik og starfi verður nefnilega ekki lært af bók heldur aðeins fengið með reynslunni og stundum finn ég að reynslan er farin að fleyta mér áfram í starfi mínu sem doula, sem er góð tilfinning.

Stundum í nýjum aðstæðum finnst mér þó ennþá skrýtið að segja hvað ég geri og hef jafnvel staðið mig að því að humma það fram af mér. En það er bara stundum.  Algengustu spurningarnar sem ég fæ enn í dag eru:

,,Doula, hvernig berðu það fram?”

,,Dúla sem sagt, og hvað gera þær?”

Og æ oftar heyri ég ,,vinkona mín var með doulu- þekkiru hana?” eða ,,ég ætla að vera með doulu næst” eða ,,ég vildi óska þess að ég hefði verið með doulu”. Þá lýt bara höfði í hljóði og þakka fyrir starfsvettvanginn minn.

Doula er upphaflega grískt orð sem þýðir kvenkynsþjónn eða þræll, með síðari tíma merkingu um að vera kona sem aðstoðar verðandi fjölskyldur (sama í hvaða formi þær eru) í gegnum fæðingu. Ég veit ekki annað en að doula sé orð sem er notað um allan heim.

Doula er borið fram dúla og er kannski ekkert sérstaklega þjált á okkar ylhýra en það er ekki komið betra orð sem stendur. Ég er alveg skotin í öðrum orðum eins og stuðningskona við/ í fæðingu. Stuðningskona er mjög lýsandi fyrir starfið mitt og mér finnst orðið fylgja skemmtilegur leikur að orðum, við fylgjum konum, fylgjur voru líka oft dýr eða menn sem fylgdu fólki í lifanda lífi og svo er fylgja tímabundið líffæri sem nærir barn í móðurkviði.  Margar aðrar tillögur hafa svo sem komið fram eins og hjálparhönd, eða hjálparhella, fæðingarhjálp og mörg fleiri sem eru alveg ágæt. Verandi elsk á tungumálið okkar tók mig smá tíma að venjast því að nota doula en það vandist hratt. Stuðningskona er líklega mest lýsandi. Doula, stuðningskona, fylgja mér finnst þetta allt falleg orð og svo verður tíminn bara að leiða í ljós hvort við höldum okkur við doula-orðið eða förum markvisst að passa að kynna stuðningskonur.

Starf doulunnar er fjölbreytt og skemmtilegt og felur alltaf í sér að styðja fjölskyldur, á þeim stað sem þær eru staddar, í gegnum meðgöngu og fæðingu og í sængurlegu.

Ég er orðin ansi þjálfuð í að segja ,,doula er kona sem styður aðra konu og fjölskyldu hennar fyrir, í og eftir fæðingu en tekur aldrei klínískt hlutverk”. Kannski svo þjálfuð að ég er orðin mónótónísk þegar ég nota lyfturæðuna mína.

En þannig er það samt, ég styð barnshafandi konur og þeirra fjölskyldur fyrir, í og eftir fæðingu og veiti samfellda þjónustu. Sem sagt sama manneskjan sem fylgir þeim í gegnum allt ferlið. Það er ég kynnist parinu á meðgöngunni, við hittumst nokkrum sinnum oftast 2-3 þrisvar og förum yfir komandi fæðingu, hvaða óskir þau hafa og hvernig þau sjá fyrir sér fæðinguna og þannig þekkjumst við ágætlega þegar kallið kemur. Stundum setjumst við niður og förum lið fyrir lið yfir hvernig við getum búist við að fæðingin verði, stundum förum við yfir gagnlegar stellingar og stöður sem nýtast í fæðingarferlinu, stundum reynum við að kryfja hvernig við getum unnið með erfiðan ótta og stundum hittumst við bara og drekkum saman kaffi og treystum böndin.

Ég tek ekki ákvarðanir fyrir fólk eða reyni að benda þeim á valkosti A eða B, ég reyni mitt besta í að vera til staðar fyrir þau og finna leiðir með orðum og fræðslu til að efla þau og styrkja. Það þýðir að fólkið sem ég kynnist er bara allskonar, ég hef aðstoðað pör í heimafæðingu, á spítala, konur sem eru að fara í keisara. Konur sem þrá fæðingu án inngripa og konur sem vilja verkjastillingu sem fyrst. Ég hef verið sjálfstæðum konum innan handar með lítið stuðningsnet og konum sem eru umvafðar her manns. Ég hef verið með þegar von er á fyrsta barninu og öðru líka.

Ég er ekki góð í öllu og með tímanum slípast reynslan til og í einhverju er ég betri en öðru en ég finn líka að með tímanum er það ekki endilega hvað ég kann heldur meira hvað það er sem konurnar eru að spá sem skiptir máli. Stundum líður mér bara eins og ég sé klettur þarna út í hafinu eða tré sem veitir skjól.

Í fæðingunni kem ég þegar mín er óskað og fer þegar ég er beðin um það (en fer sjálf svona c.a. tveimur tímum eftir fæðingu ef enginn segir neitt). Engin vaktaskipti og tek í raun ekki pásur. Ég get sinnt fæðingunni 100%.
Hver fæðing er einstök og hvert par fer aðeins einu sinni í gegnum hverja fæðingu svo það er misjafnt hver aðkoma mín er. Ég er yfirleitt í sambandi við fólk þegar það finnur og fæðingin er í uppsiglingu, ég kíki oft heim til þeirra og ef það er byrjandi fæðing stoppa ég kannski í smá stund og fer aftur og kem svo aftur seinna en er áfram ef mín er þörf. Stundum hitti ég parið uppi á spítala um leið og þau fara en stundum kem ég beint í mesta fjörið.

Í fæðingunni get ég verið úti í horni og sagt ekki neitt, stundum er ég að spjalla, stundum nudda og stundum hughreysta. Allt eftir því hvernig fæðingin er og hvar í ferlinu við erum. Stundum sæki ég vatn og rétti út þvottapoka, stundum kinka ég bara kolli og stundum er ég að hjálpa til við að takast á við breyttar aðstæður. Stundum hef ég þurft að taka á öllu mínu og ekki haft hugmynd um hvað ég eigi að gera annað en að vera til staðar og reyni að taka bara vel eftir svo við getum rætt fæðinguna eftir á. Reyni í þá í veikum mætti að gera gagn en vera ekki fyrir.
Í flestum fæðingum spyr ég mig ítrekað, hvernig minning verður þessi fæðing og reyni að hugsa leiðir til þess að upplifunin þar og þarna verði sem jákvæðust fyrir alla.

Svo þegar barnið er fætt dreg ég mig oftast í hlé og reyni í öllu þysinu að leyfa foreldrunum nýju að njóta, ég reyni líka að grenja ekki úr mér augun og staglast á einhverju eins og ,,ji minn, þið eruð æði” sem ég finn að er pínu þema hjá mér. Ég finn aldrei jafnmikla aðdáun eins og í fæðingum. Það er ekkert eins heilagt.
Ég kveð svo nýju eininguna fljótlega og kem mér heim. Það er svo magnað að vera í fæðingu annarar fjölskyldu. Aukaafurð er að það er magnað að koma heim til sinnar eigin fjölskyldu eftir að hafa verið fæðingu annars barns. Stundin sem maður gengur aftur inn í húsið er heilög, það er eitthvað nýtt og fallegt heima hjá mér líka í hvert sinn. Fyrir það er ég svo þakklát.

Eftir fæðinguna hitti ég fólkið yfirleitt tvisvar, strax eftir fæðingu og svo nokkrum dögum seinna til að fara yfir fæðingarupplifunina og ef það er eitthvað sem ég get gert frekar. Annars kveðjumst við, oft í bili, og ég finn að þau eiga sérstakan stað í hjarta mér. Alltaf. Ég er alltaf að æfa mig í að eiga auðvelt með kveðjustundir en það er yfirleitt í kveðjustundunum sem ég man af hverju ég sinni þessu starfi með skrýtna heitinu.
Það sem rekur mig áfram er að finna, konu fyrir konu, fjölskyldu fyrir fjölskyldu að þau stóðu sterkari uppi fyrir vikið. Að með því að sitja á hliðarlínunni upplifðu þau kraft og styrk. Kannski vellíðan. Það er góð tilfinning, það er ástæðan fyrir því að ég er doula.


Stuðningur í fæðingu

Stundum þegar ég hef verið að aðstoða fólk við að undirbúa sig fyrir komu barns í heiminn hef ég spurt pabbann/makann hvernig hann sjái fyrir sér að styðja konuna sína í gegnum fæðinguna. Sjaldnast stendur á svari ,,ég ætla bara að gera mitt besta, gera það sem hún biður mig um og vera til staðar“.

Það er nefnilega heilmargt sem stuðningsaðilinn getur gert til að létta undir í fæðingunni.

Mikilvægur en vanmetinn eða vanræktur stuðningur felst í því að vera sjálfur í lagi, vera búinn að borða vel undanfarna daga og hvíla sig. Fæðing er oftast hörkupúl sem getur verið mjög löng og krafist þess að maður geri allskonar, það er mikið betra fyrir mann sjálfan og alla í kring að vera upplagður.

Það er gott að vera með á nótunum, hafa spjallað vel um komandi fæðingu og hvernig þið sjáið hana fyrir ykkur. Hvar ætlið þið að fæða? Hvenær er stefnan tekin á að fara þangað? Afhverju? Hvað ætlið þið að gera í biðtímanum? En þegar allt er komið á fullt? En ef það er eitthvað óvænt, hvað þá? Hvert er plan A? En plan B? Hvað viljið þið gera ef plan C hoppar til ykkar? Við hvað eruð þið hrædd og af hverju? Hvernig ætlið þið að tækla það ef sú staða kemur upp? Viðhorf til verkjastillingar, hvert er það? Eruð þið með svipað tollerans í því? Ef þið eruð búin að ræða málin vel getið þið betur tekist á við aðstæður sem koma upp.

Fæðingarundirbúningur er líka mikilvægur, það er gott að þekkja fæðingarferlið, upphaf, einkenni, hvað er eðlilegt og við hverju þarf að bregðast. Hvað er gott að gera í hverjum aðstæðum og hafa reynt og prófað það sem líklega kemur upp. Mikið betra að hafa kynnt sér það í tíma frekar en að panikka á ögurstundu.
Að sama skapi er gott að hafa tileinkað sér ákveðna öndunartækni sem róar mann og nýtist í fæðingunni, fyrir mann sjálfan og svo konuna sem maður styður. Einfaldasta formið er að anda þrisvar djúpt að sér andanum og anda frá rólega og skoða með opnum huga hvaða áhrif það hefur á líkamann.

Þá getur verið gott að vera búinn að kynna sér eitthvað um nudd í fæðingu, það eru ákveðin svæði á baki og mjöðmum sem mörgum konum finnst gott að láta nudda eða þrýsta á í fæðingu, maður fær oft auka stig í kladdann með því að vita hvar er gott að fá nudd og strokur. Flestar konur vilja léttara nudd í upphafi fæðingar og svo þéttara eftir því sem líður á fæðinguna.

Einlægt hrós er alltaf hvetjandi og það getur verið gott að vera búinn að setja smá hugsun í hvaða orð hvetja konuna áfram, hvaða hrós hittir hana í hjartastað og eflir og hvetur. Hvaða orð notar hún sjálf til að hvetja sig áfram? Ekki vera spar á hrósið, það kemur mann nær lokamarkmiðinu.

Vertu til staðar í augnablikinu og veittu því athygli sem er að gerast. Sjúklega erfitt, sérstaklega þegar aðstæður eru pínu erfiðar en það margborgar sig. Skoðaðu með opnum huga hvað er að gerast, hvert er hún að horfa? Er endurtekning í ferlinu hjá henni? Nær hún að slaka á og sóna út á milli hríða? Veittu því athygli hvort það hljómi allt eins og það sé í himnalagi eða er verið að gefa eitthvað annað til kynna?

Ekki tala meðan á samdrætti stendur, betra að tala á milli og ef eitthvað er óljóst er yfirleitt betra að spyrja beinna spurninga sem auðvelt er að svara með jái eða nei-i. ,,Viltu vatn?“ er þægilegri spurning en ,,hvað viltu drekka?“. Fyrri spurningin býður upp á já/nei svar og svo er líka hægt að kinka kolli eða hrista höfuðið eftir því sem við á.

Vertu vakandi fyrir bendingum, stundum geta konur ekki talað eða vilja ekki segja neitt og
þá er gott að geta bent með höfðinu eða fingrunum í áttina að því sem mann vanhagar um eða truflar mann.

Forðastu allar leiðbeiningar um andardrátt nema vera handviss um að það sé viðeigandi ,,anda inn- anda út“ getur verið mjög ruglandi og manns eigin andardráttur ekki í takt við öndun konunnar eða í samræmi við líðan hennar. Ef maður er ekki viss um að andardráttur konunnar sé eins og hún myndi kjósa reynist vel að stilla sig inn á hana og leiðbeina með útöndun, hvetja til að anda rólega frá sér og anda alveg frá sér frekar en að spá í hvernig innöndunin er.

Vertu þolinmóður eins og þú getur. Fæðing tekur oft langan tíma, venjuleg fæðing yrði aldrei sýnd í sjónvarpi í rauntíma því hún er langdregin og getur dregist og dregist. Vertu þolinmóður og haltu í jákvæðnina og bjartsýnina. Áður en þið vitið af er litla krílið komið í fangið til ykkar.


Leiðir til að fækka/hætta næturgjöfum

Ein algengasta fyrirspurnin sem ég fæ er um hvernig sé best að hætta næturgjöfum og þá helst hvenær, hvort einhver tími sé betri en annar.

Börn eru ólík og hafa misjafnar þarfir svo það verður að taka inn í jöfnuna hvernig týpa barnið er, aldur og svo auðvitað þarfir og óskir foreldranna.

Það er mikilvægast af öllu að foreldrar finni innra með sér að næturgjafirnar trufli upp að því marki að þeir vilja hætta og hvatinn komi frá þeim og barninu en ekki utan frá utanaðkomandi aðilum. Málið er að það kemur alltaf að því að barnið sefur í gegnum nóttina og næturvöknunin heyrir sögunni til. Ef þið eruð frekar afslöppuð með þetta og takið þessu létt er það bara allt í lagi. Hinsvegar er áríðandi að taka málin í sínar hendur þegar maður finnur að svefnleysið eða svefnrofið er farið að hafa merkjanleg áhrif á sig og þá er gott að vera nokkuð staðfastur í sínu.

Þegar tekið er á næturdrykkju barna er gott að hafa í huga að það að barnið hætti að drekka á nóttunni þýðir ekki endilega að það hætti að vakna á nóttunni en það getur vel þýtt að það vakni sjaldnar og að það sé auðveldara að takast á við næturvöknunina. Stundum er töfralausnin að hætta næturdrykkju, þegar hvatinn að því að vakna er orðinn lítill fara sum börn að sofa í gegnum nóttina.

 

Ég tók saman nokkur atriði sem vonandi hjálpa þegar minnka á næturgjafirnar.

 

Gefa góða næringu jafnt og þétt yfir daginn.

Krílin okkar eru mikið á ferðinni, skoða heiminn, rífa, tæta, leika og oft er eins og þau hafi hvorki tíma né nennu til að drekka og næra sig á daginn en það skiptir máli að næra magann reglulega yfir daginn svo hann vilji hvílast á nóttunni. Börn sem nærast lítið á daginn vegna anna munu bæta sér það upp á nóttunni. Það er líka gott að hafa í huga að oft er auðveldara að hætta næturgjöfum ef maður man eftir því að gefa sér tíma í daggjafirnar.

 

Veita athygli og nánd yfir daginn

Sum börn eru of upptekin á daginn til að veita foreldrum sína nokkra athygli og sækja sér í nánd og hlýju á nóttunni. Það er auðveld að minna niður snertingu og umönnum eftir því sem barnið er eldra án þess að gera sér grein fyrir því. Aukin næturdrykkja og þegar börn hanga á stóran hluta nætur kemur líka oft í kjölfarið á meiri fjarveru t.d. þegar farið er aftur til vinnu og samverustundum fækkar.

 

Passaðu að gefa fulla gjöf ef barnið vaknar.

Stundum rumskar barnið til að drekka en sofnar í raun strax aftur (og kannski þú líka) og þá hefur það ekki drukkið nægju sína, er enn svangt og vaknar fljótlega aftur til að drekka. Gott ráð er að ef barnið vaknar til að drekka eftir ásættanlegan tíma er að passa að gefa því vel að drekka og freista þess þannig að barnið sofi aftur langan dúr.

 

Losaðu brjóstið

Eftir að barnið hefur drukkið nægju sína gættu þess þá að það losi takið af brjóstinu og haldi áfram að sofa. Þegar hægja fer á kyngingum hjá barninu er upplagt að losa brjóstið frá, þægilegast að setja fingurinn í munnvikið og þá losnar takið. Stundum verða þau pirruð og þá er bara að meta hvort maður haldi áfram að leyfa barninu að drekka og haldi svo áfram að losa en lykillinn að árangri er að losa alltaf takið í næturgjöfum og halda sér við efnið. Fyrst er barnið pirrað, svo fer það að venjast þessu og að endingu nær maður upp vananum að barnið drekkur, sleppir brjóstinu og heldur áfram að sofa.

 

Gættu þess að ofsvara barninu ekki.

Börn rumska oft yfir nóttina og gefa frá sér hljóð en í mörgum tilfellum halda þau svo áfram að sofa, það er mikilvægt að staldra við og meta stöðuna áður en maður bregst við. Frekar að hinkra aðeins og sjá hvort þau fari aftur að sofa en að rjúka til og gefa sofandi barni.

Einföld regla eins og að telja upp á tíu, anda þrisvar og prófa að sussa á barnið eða gefa því snuð virkar oft til að koma börnum af stað í annan svefnhring.

 

Ekki sofa upp við barnið

Stundum vakna börn einfaldlega bara af því að þau eru svo nálægt mömmunni, lyktinni og húðinni og það getur hreinlega vakið þau að rekast upp við bera húð. Hlýtt og gott, rumsk, mömmuhúð, alveg rétt- er ekki kominn tími til að drekka?

Þetta ferli má brjóta upp með því að hafa bil á milli ykkar, ef barnið sefur upp í að hafa pláss á milli eða hitt foreldrið á milli eða með því að barnið sé í eigin svefnfleti.

 

Það er allt í góðu að segja nei!

Þegar börnin eru farin að skilja vel er hægt að setja þeim mörk og neita þeim. Þetta krefst endurtekningar og þolinmæði en hefst að lokum.  Aðstæður gætu verið svona, Barn; drekka (oftast sagt með hljóðum eins og neeh) mamma; nei/ ekki núna/ seinna/ á morgun. , barn; drekka, mamma; nei/ ekki núna. Með því að vera staðfastur og yfirvegaður hefst þetta að lokum. Hér er það endurtekningin og staðfestan sem skilar sér hratt. Persónuleiki barnsin hefur heilmikið að segja, sum börn láta sér segjast við neitum tvö eða þrjú meðan önnur þræta fleiri fleiri daga.

 

Fáðu aðstoð

Stundum er það þess virði að skipta út hlutverkum og leyfa hinu foreldrinu að taka við næturbröltinu. Ávinningurinn af þessu getur verið margvíslegur, einn er betri svefn, annar er betra tækifæri fyrir pabbann að hugga barnið og tengjast því og barnið öðlast meiri færni við að hafa fleiri umönnunaraðila.

Í þessum aðstæðum borgar sig að pabbinn svæfi barnið og sinni því svo þegar það vaknar aftur með því að hugga, róa, rugga.

 

Til þess að þetta gefist vel þarf barnið að vera orðið það gamalt að það skilji og skynji umhverfi sitt vel. Ykkar tilfinning verður að fylgja máli og verið viss um að barnið sé orðið það gamalt að þörfin fyrir næturgjafir er ekki lengur til staðar. Það borgar sig líka að gefa sér tíma í þessa kynningu fyrir barnið. T.d. ef móðir hefur nær eingöngu annast barnið þegar kemur að háttatíma og fyrir svefninn líka getur verið gott að gera það saman 1-2 kvöld áður og svo að hitt foreldrið taki við. Það gefur öllum hlutaðeigandi tækifæri á að þjálfa sig í breyttum aðstæðum. Stundum bregðast börn nefnilega hart við því þau eru hissa í nýjum aðstæðum frekar en þau séu að hafna umönnunaraðilanum. Hér er líka lykilatriði að mamman geti fundið ró í að fara annað og að hitt foreldrið treysti sér í að annast barnið á yfirvegaðan máta og vera þolinmótt.

Veljið tímann vel, þegar allir eru upplagðir og hressir og hitt foreldrið hefur séns á að hvílast meira eins og um helgi. Þá er á sama tíma mikilvægt að muna að grátur og kvart í örmum foreldris er ekki það sama og vera skilinn eftir og grenja úr sér næturvöknunina.

 

Svefnlausnir eru ekki skyndilausnir

Þegar maður er að aðlaga svefninn og breyta svefnrútínunni er gott að muna að góðir hlutir gerast hægt og að við erum sérfræðingar í börnunum okkar. Það er gott að vera staðfastur, fylginn sér og halda í endurtekningu til að ná árangri en hlutirnir taka tíma og maður verður að gera ráð fyrir að ný svefnvenja skapist í rólegheitunum. Það má líka hvenær sem er breyta um áætlun og jafnvel hætta við.

Þegar maður er að breyta svefnvenjum er gott að horfa í hegðun barnsins til að sjá hvaða áhrif breytingin hefur á það, er það líkt sjálfu sér á daginn, líður vel og nægjusamt eða sýnir það breytta neikvæðari hegðun svo sem að vera hangandi í, grátgjarnt og viðkvæmt. Ef svo ber undir getur verið gott að bakka og endurskoða áætlunina.

Muna svo umfram allt að svefnlausnir eru ekki skyndilausnir og allt miðar áfram í rólegheitum.

 

Gangi ykkur vel.




Nokkur ráð til að bæta nætursvefn ungbarna

Svefn og hvíld er okkur öllum mikilvægur, það er mikilvægt fyrir lítil börn að hvílast vel og hvíldin skiptir okkur foreldrana líka máli, því svefninn hefur bein áhrif á líðan okkar.
Það er eitt og annað hægt að gera til að gera svefnumhverfið betra og auka líkurnar á að litla krílið sofi í gegnum nóttina.
Þó verður að hafa í huga að svefnlausnir eru ekki skyndilausnir, það tekur tíma að skapa nýja rútínu og yfirleitt mjakast þetta aðeins áfram, skref fyrir skref. Börn eru líka æði ólík og sum börn eru fljót að koma sér í svefnrútínu meðan önnur þurfa mikla aðstoð.
Lykilatriði í bættum svefnvenjum er rútína, endurtekning og ró og að lokum næst takmarkið langþráða, að sofa í gegnum nóttina.  Hér eru nokkur ráð sem geta bætt og lengt svefn barna á tiltölulega einfaldan og áreynslulítinn hátt.
 
1) Gættu þess að það sé ekki of heitt í herberginu þar sem barnið sefur og það ekki ofklætt. Hús og herbergi á Íslandi eru yfirleitt mjög heit og oft er hreinlega of heitt í svefnherbergjunum, fyrir börn og fullorðna. Of mikill hiti (nú eða kuldi) veldur því oft að börn vakna, þeim líður ekki vel og börn með viðkvæma húð eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessu. Það getur verið betra að athuga líkamshita barnsins en að finna hendur eða fætur til að átta sig á hvort að hitastigið er rétt því hendur og fætur eru oft aðeins kaldari. Með því að passa að hitinn sé um 18-20 gráður er líklegra að barnið sofi.
 
2) Hafðu svefnstaðinn kósý. Það skiptir máli hafa svefnstaðinn eftirsóknarverðan og kósý, notalegt umhverfi þar sem auðvelt að koma sér vel fyrir. Mörgum börnum finnst gott að hafa eitthvað þétt við sig svo það getur borgað sig að hafa svefnrýmið ekki of stór. Það getur líka borgað sig, ef hægt er, að aðskilja svefnstað og leikstað. Rúmið er staðurinn þar sem allt er í ró og maður tengir við að í rúminu (svefnstaðnum) er sofið.
 
3) Einfaldur svefnstaður er líka mikilvægur, þar er bara það sem þarf en ekkert annað aukadót. Það er auðveldara að sofna í umhverfi sem er fábreytt og einfalt en þar sem augnáreiti er mikið. Bangsar, dúkkur og dót ættu því að vera í lágmarki sem og hringlur og raftæki. Sæng og uppáhaldsbangsi eða dúkka er alveg nóg. Fyrir utan hve mikið aukahlutirnir geta truflað, safnast ryk í þá.
 
4) Hafðu daglúr og nætursvefn ólíkan. Það skapar vissu fyrir barnið að venjast því að sofa í rúminu sínu á nóttunni en t.d. í vagni á daginn. Þannig áttar það sig á með tímanum að rúmið þýðir langur svefn. Það skiptir líka máli að hafa dimmt á nóttunni þegar sofið er og bjart á daginn.
 
5)  Skapaðu svefnrútínu því rútína skapar öryggi. Með afslöppuðum háttatíma sem er alltaf eins fer barnið fljótt í svefngírinn, þekkir þegar rútínan byrjar og fer ósjálfrátt að stilla sig inn á svefn. Eitthvað sem virkar fyrir fjölskylduna t.d. bað, náttföt, burstatennur, lesa bók, slaka á og sofa. Rútina er líka mjög gagnleg fyrir foreldrana því á erfiðari dögum þegar maður er þreyttur er auðveldara að koma sér í gegnum kvöldið ef rútínan er í lagi.
 
6) Gættu þess að ofsvara ekki barninu. Mörg börn rymja og stynja og láta heyra í sér en eru í raun enn sofandi. Því er gott að venja sig á að hlusta og hinkra og átta sig á stöðunni áður en maður fer inn og bregst við, oftar en ekki halda krílin áfram að sofa.
 
7) Notaðu svefnhljóð, gerðu alltaf sama hljóðið þegar þú heyrir að barnið er að rumska og gera sig líklegt til að vakna, hljóð eins og uss eða annað róandi suðandi hljóð, veitir barninu vissu um að foreldrið er til staðar og gefur því skilaboð um að halda áfram að sofa.
 
8) Andaðu djúpt og yfirvegað, þegar við öndum meðvitað rólega skilar það sér til barnsins og það heldur ró sinni og sofnar frekar.
 
Kannski viltu vita meira um svefn? Það er námskeið um svefn barna 1. mars í Lygnu sjá nánar hér
 

Eiga börn að vakna á nóttunni?

Nýlega rakst ég á grein um svefn barna sem bendir á að það er eðlileg hegðun barns að vakna á nóttunni. Greinin er úttekt á rannsókn sem gerð var frá Swansea-háskóla í Whales og sýnir að flest börn undir eins árs vakna amk einu sinni á nóttunni.

Spurningalisti var lagður fyrir 715 mæður barna á aldrinum 6-12 mánaða og þær spurðar út í svefnvenjur barnanna, hve oft þau vöknuðu og hvort þær nærðu börn sín þegar þau vöknuðu.

Niðurstöðurnar voru að 75% barna á þessum aldri vaknaði enn reglulega á nóttunni, að minnsta kosti einu sinni yfir nóttuna og sex af hverjum tíu börnum fengu að drekka mjólk í það minnsta einu sinni.

Annað sem var mjög áhugavert var að það var enginn munur á næturvöknun barna sem voru á brjósti eða á pela. Eins virtist ekki skipta máli upp á næturvöknum hve oft börnin nærðust yfir daginn eða hve margar máltíðir þau fengu. Mæður með börn á brjósti gáfu börnum sínum þó oftar að drekka á nóttunni.


Nokkrar góðar bækur

Gleðilegt nýtt ár,

kannski er þessi grein fullseint á ferð en það verður þá bara að hafa það en ég var að hugsa um jólin, þegar mér finnst gott að stinga nefinu ofan í bók, hvaða bækur eru góðar til að lesa fyrir foreldra á meðgöngu og svo fyrsta árið og ákvað að deila með ykkur nokkrum af mínum uppáhaldsbókum.

 

Líklega þekkja margir Ina Mays Guide to Childbirth eftir Inu May Gaskin og með henni er hægt að mæla heilshugar, hún er listavel skrifuð, hvetjandi, eflandi og byggð á þekkingu og áratugareynslu ljósmóður í Bandaríkjunum. Ekki skemma krúttlegar gamlar fæðingarsögur sem skreyta bókina. Ina May hefur líka skrifað tvær aðrar bækur sem eru þess virði að lesa, annars vegar Birth Matters og svo Ina Mays Guide to breastfeeding

Önnur bók eftir ljósmóður sem er alveg dásamleg, hvetjandi eflandi og hentar vel nýjum foreldrum og þeim sem eru að eignast sitt annað, þriðja, fjórða er Birthing from within eftir Pam England. Hún tekur svo vel á öllu heila ferlinu, er eflandi og hvetjandi og með mörg góð og hagnýt ráð.

Mindful birthing eftir Nancy Bardacke er mjög áhugaverð bók og ætti að grípa alla sem hafa áhuga á núvitund. 

The Birth partner eftir Penny Simkin er góð bók, full af staðreyndum og góðum upplýsingum og er auðveld yfirlestrar og ætti að höfða til flestra. Penny hefur líka skrifað aðra mikilvæga bók í samvinnu við Phyllis Klaus sem heitir When survivors give birth og tekur á því hvernig kynferðisofbeldi getur haft áhrif á fæðandi konu.

Wonderweeks eftir Hetty Van de Rijter frábær doðrantur fyrir nýja foreldra og gefur góða innsýn og góðan skilning inn í líf og hugarheim barnsins. Það er líka hægt að nálgast app sem er tengt þessu sem er ótrúlega sniðugt.

Baby Calm er svo önnur bók fyrir foreldra sem má mæla heilshugar með, höfundur bókarinnar Sarah Ockwell-Smith hefur góða innsýn í hugarheim nýrra foreldra og miðlar af gæsku og mildi og hvetjur alla til að fylgja innsæi sínu. 

Auðvitað eru líka íslenskar bækur spennandi. Mér þykir alltaf vænt um Upphafið eftir Huldu Jensdóttur, Fyrstu 1000 dagarnir  eftir Sæunni Kjartansdóttur er aðgengileg bók sem byggir á tengslakenningum sem upplýsir vel og gefur ráð um umönnun barnsins fyrstu tvö árin. Sæunn gaf líka út bókina Arin sem enginn man sem er þess virði að lesa.

Þessa dagana bíð ég líka eftir nýrri bók sem heitir Bókin okkar, ný íslensk bók um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Ég hlakka til að lesa þá bók.

 Þetta eru svona bækurnar sem komu fyrst upp í hugann og nýtist vonandi einhverjum í lestrarhugleiðingum.

 


Lenging fæðingarorlofs

 

Enn á ný er rætt um lengingu fæðingarorlofs og samkvæmt þessari frétt hér er lagt til að orlofið verði lengt úr 9 mánuðum í 12 og hámarksgreiðsla hækkuð, sem er auðvitað góðra gjalda vert. Það er löngu tímabært að lengja fæðingarorlofið og 12 mánuðir er mjög góð byrjun.

Samkvæmt greininni sem ég vísa í að ofan er lagt til að heildarorlof foreldra geti verið 12 mánuðir en þar sem lagt er til að réttur hvors foreldris fyrir sig verði fimm mánuðir sem ekki má ráðstafa og tveir mánuðir sem ráðstafa má að eigin vild þýðir það ekki tólf mánaða orlof í reynd.

Þessi uppsetning þýðir að foreldrarnir hafa lengra orlof en staðan að líkindum óbreytt fyrir barnið. Nái breytingin fram að ganga er lengingin í raun um mánuð fyrir krílið, móðirin (eða aðalumönnunaraðili barns) getur þá ráðstafað sér allt að 7 mánuðum í stað sex nú.

Þessi festing, að binda orlof við hvort foreldri fyrir sig, er ekki tekin með þarfir barnsins í huga, ekki tekin út frá þeirri vitneskju sem við höfum um umönnun ungbarna eða út frá þeirri vitneskju sem við höfum um þarfir nýrra foreldra heldur út frá hugsjónum fullorðins fólks um jafnrétti sem það vill sjá meðal fullorðins fólks. Þessi festing er meira einhversskonar grobb fyrir tímarit eða Norðurlandaráðsfundi, regla reglunnar vegna og skeytir í raun ekkert um það sem skiptir raunverulega máli, að búa barni og foreldrum þess vænan tíma í upphafi.

Nýfæddu barni er nefnilega slétt sama um samfélagsgerð okkar og hugmyndir um jafnrétti og aðra pólitík, nýfætt barn vill og þráir tengslaöryggi við eina manneskju, aðalumönnunaraðilann sem í flestum tilfellum er móðirin. Aðaltengslaumönnunaraðilinn annast barnið, örvar og hvetur fyrstu mánuði lífsins, þekkir inn á þarfir og verndar. Þetta tengslaöryggi tekur tíma að mynda og í kjöraðstæðum hefði móðirin (aðaltengslaaðilinn) meir en ár til að sinna því. Auðvitað er mikilvægt að aðrir tengslaaðilar komi að en til að byrja með er hlutverk þeirra annað fyrstu mánuðina og vex eftir því sem tíminn líður.

Fæðingarorlof er tími foreldra og barns til að kynnast og tengjast og það er bara heilmargt í gangi þessa fyrstu mánuði. Það að annað foreldrið hafi ráð á að vera heima með barnið í níu eða tólf mánuði í fullu orlofi kemur til með að skila sér á svo margan hátt út í samfélagið aftur. Kannski er lenging fæðingarorlofs, án kvaða, ein besta geðheilbrigðisfjárfesting sem samfélagið getur lagt út í.

Það að foreldrar barns geti ráðstafað árs fæðingarorlofi að vild sín á milli kemur til með að nýtast barninu og nýju fjölskyldueiningunni mun betur en festir mánuðir. 

Ég velti því líka fyrir mér afhverju ekki megi lengja orlofið, án kvaða? (eða leggja fram tillögu um slíkt)
Af hverju er pressa á að festa orlofið á báða foreldra? Af hverju má ekki einfaldlega bæta við orlofsmánuðum við það kerfi sem nú er og treysta svo foreldrum fyrir því að ráðstafa því eftir hentugleika? Hver fjölskyldueining hlýtur að finna út úr því hvernig það kemur best út, svo barnið njóti velferðarinnar. 

Okkur er allajafna treyst fyrir öðrum stórum afdrifaríkum ákvörðunum svo sem um hjúskap, vinnu, búsetu, lánatöku og líffæragjöf. Flest pör skipta einu og öðru á milli sín, og þau hljóta að geta klórað sig skammlaust út úr því að skipta niður fæðingarorlofinu af vitnesku og með virðingu og jafnræði í huga. Við verðum að treysta því að í velmenntuðu samfélagi, búi skynsamt fólk sem taki skynsamlegar ákvarðanir.

Með því að festa orlofið kemur allskonar til með að gerast, hliðarverkanir verða meðal annars að annað foreldrið nýtir ekki orlofið sem skyldi, eða orlofið er tekið þegar barnið er ekki lengur heima eða einn er skráður í orlof en er í raun í vinnu.

Með frjálsri ráðstöfun kemur líka allskonar til með að gerast. Einhverjir foreldrar munu skipta orlofinu jafnt, aðrir munu setja það allt á annan aðilann og þeir foreldrar sem eru einir koma til með að geta tekið orlof sem tveir séu. Þannig ættu allir að geta fullnýtt orlofið, barninu til heilla og allir setið við sama borð.

Við þurfum ekki að vera hrædd við að fyrsta ár barns leiði fólk í ,,gildrur” og taki allt jafnræði af heimilinu. Við þurfum ekki að vera hrædd við að foreldrar hafi ólík hlutverk eftir aldri barns. Við megum ekki vera svo trúuð á eitthvað að við viljum það láta yfir alla aðra ganga í nafni hugsjónar okkar, óháð því hvernig það þjónar öðrum.

Í allri umræðu um fæðingarorlof megum við ekki vera svo blind af hugsjónum okkar að við berjumst fyrir þeim til ógagns. Í umræðunni um fæðingarorlof verðum við að treysta því að foreldrar taki góðar ákvarðanir fyrir sig og sína. 

 


Bara einn andardrátt í einu

Eitt öflugt verkfæri til að nýta sér í fæðingu er öndun. Það að leggja áherslu á öndun til að róa hugann og stilla verki eru alls ekki ný sannindi en það má alveg halda því til haga hvað það er gagnlegt. Róleg og yfirveguð öndun, sem helst hefur verið æfð, kemur flestum vel inn í fæðinguna sína og jafnvel alveg í gegnum hana. 

Það getur til dæmis verið sérlega hjálplegt að draga andann djúpt og anda frá sér á löngum hægum andardrætti og endurtaka að minnsta kosti þrisvar sinnum, auðvitað er ákjósanlegt að gera það oftar. Leggja áherslu á útöndunina því þar liggur spennulosunin. Við könnumst flest við það að þegar við dæsum eða stynjum, þ.e. blásum lofti frá okkur erum við að losa spennu, samþykkja aðstæður og halda áfram meðan þegar við erum spennt og stíf höldum við frekar niðri í okkur andanum. 

Sem sagt galdurinn er að leggja áherslu á útöndunina og endurtaka eftir þörfum. Undanfarna daga hef ég meir að segja rekist á myndir á facebook sem auðvelt er að horfa á og fylgja eftir (m.a. mindful.org á fb).

Meðvituð hæg öndun hægir á hjartslætti og slær á kvíða og sársaukaboð, hluti af því tengist önduninni, eitthvað má skrifa á að einbeitingin fer á öndunina og hverfur þá frá öðrum hugsunum. Og stundum dettur bara allt í takt og virkar og tíminn líður og líður og það eina sem kona hugsar um er næsti andardráttur. 

Það að nýta sér öndun sem slökun í fæðingu nýtist í öllum fæðingum, óháð því hvar þær byrja, hvernig þær eru og hvernig og hvar þær enda. Einföld leið til að róa hugann í nýjum og oft strembnum aðstæðum. Öndunin nýtist óháð því hvort kona er á ferðinni eða rúmföst.

Kannski er versta gildran að festast í því að kona haldi að hún verði að anda rétt. Það er einfaldlega ekki hægt að ,,anda rangt", kannski ómeðvitað eða ósjálfrátt en stimplarnir ,,rétt" og ,,rangt" eiga ekki við í öndun (eða ættu að eiga heima í fæðingu yfirleitt). Svo það allra mikilvægasta er auðvitað að anda þannig að það rói mann og nýtist manni, anda eins og manni langar til. Mörgum hjálpar heilmikið að bæta við hljóðum eins og haaa eða frussa og jafnvel purra. 

Flestir finna svo að eftir því sem líður á fæðinguna, þegar samdrættirnir styrkjast og meira fjör færist í leikinn að meðvitaða öndunina minnkar, andardrátturinn verður grynnri og örari og ósjálfráðari. Þannig er það bara yfirleitt og eðlileg viðbrögð. Á einhverjum tímapunkti hætta flestar konur líka að spá í öndunina og fara meira að pæla í að halda áfram og koma sér í gegnum fæðinguna.

Ég hef ótal oft heyrt ,,glætan að ég hefði andað þessu barni í heiminn" eða ,,öndunin nýttist okkur meðan við hringdum upp á fæðingardeild" og það er bara allt í lagi, það er ekkert eitt rétt í þessum efnum.

Svo eru líka fjölmargir aðrir sem vitna um að öndunin hafi breytt fæðingunni til hins betra, gert krefjandi aðstæður bærilegar, einn andardrátt í einu.

Málið er að til þess að tækni nýtist í fæðingu verður maður að kunna hana og hafa tileinkað sér hana með æfingu. Það er til lítils að fletta upp orðinu öndunaræfing, daginn sem fæðingin byrjar og ætla að nýta sér öndun út í gegnum fæðinguna. Það nýtist langbest að hafa æft sig, heima, með fæðingarfélaga, í jóga eða á einhverju námskeiði. Því meir sem maður hefur lagt upp úr því að tileinka sér öndun því líklegra er að hún fleyti manni vel inn í fæðinguna, eða hreinlega í gegnum hana. 


Fæðingarreynslan

Fæðingarreynslan er minning sem dvelur með okkur konum alla ævi og það er alveg ótrúlegt hvað hún er fersk í minninu alla ævi. Kannski má segja að fæðingarminningin sé sú minning sem hafi hvað mest áhrif á konur.

Konur muna fæðinguna sína yfirleitt í nokkrum smáatriðum og þó tíminn líði verður hún ljóslifandi um leið og talið berst að henni. 

Það kemur kannski ekki á óvart en það sem konur muna helst er hvernig hugsað var um þær í fæðingunni og hvernig þeim leið með fólkinu í kringum sig. Konur muna betur hverjir voru í kringum þær og hvaða áhrif það hafði á líðan þeirra en nákvæmlega hvernig fæðingarútkoman var, hvort fæðingin hafi verið skráð sem góð, hröð, venjuleg eða eitthvað annað.

Þetta virðist eiga jafnt við aðstandendur og fagfólk. Konur muna hvernig var komið fram við þær, augnsambandið, hvort viðkomandi hafði áhuga á þeim eða ekki, andardráttinn og nærveruna, stök orð og umhyggju. Muna hvort hlustað var á þær, þeim hjálpað og þær studdar í gegnum ferlið. Hvort þær voru virtar og komið fram við þær af virðingu.

 

Konur muna líka yfirleitt hvaða tilfinning var innra með þeim í ferlinu og hvort þær upplifðu sig við stjórnvölinn eða ekki. Þessi tilfinning, að upplifa sig við stjórn og upplifa virðingu, er ein sterkasta minningin sem situr eftir með konum eftir fæðingu.

 

Konur sem upplifa gott teymi í kringum sig, þar sem þær eru studdar, efldar, hvattar áfram og á þær hlustað og þær virtar upplifa sig öflugri og sterkari á eftir. Konur sem hafa upplifað þennan stuðning tala oft um að þeim líði eins og þær geti allt, að þær séu einstakar og getumiklar og það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve mikilvægt veganesti sú tilfinning er út í lífið.

Það er gott fyrir barnshafandi konu að hafa þetta í huga, að fæðingarreynslan sé minning sem kona man og velta því fyrir sér hvernig best sé hægt að vernda fæðingarminninguna, pæla í því hvað skipti sig máli, hverjir eiga að vera með í fæðingunn og hvar konunni líður best. 

Efst í huga okkar sem komum að fæðingum ætti alltaf að vera ,,hvernig mun hún muna eftir þessum degi?”

 


Um bloggið

Soffía Bæringsdóttir

Höfundur

Soffía Bærings
Soffía Bærings

Soffía er doula og hefur verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgja konum í gegnum fæðingu. Hún er áhugakona um mannréttindi fæðandi kvenna og velferð nýrra fjölskyldna.Hún heldur úti síðunni www.hondihond.is

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • soffiasvarthvittskog

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband